Hvað er gert á æfingum í “Handboltahreysti”?

Það er ekki nema vona að spurt sé, því þetta er ákveðin nýsköpun fyrir mig að minnsta kosti. Ég hef þó lengi gengið með þessa hugmynd og nú er komið að því að prófa hana með góðu fólki. Fyrirmyndin er að nokkru leiti fengin frá Danmörku í “Handbold fitness” en líka af leikjum og þreki, aðlöguðu að fullorðnu fólki.

* ef úrslitaeinvígi Fjölnis og Þórs í mfl. kk í handbolta fer í 5 leiki þá færist tíminn 2. maí aftur fyrir prógrammið.

Uppbygging tímaseðilsins er nokkurn veginn svona:

  • Mæting, hvert og eitt byrjar að hreyfa sig úr stað
  • Stýrð upphitun, frá kyrrstöðu í hlaup og hopp, stigvaxandi með hreyfanleika og virkjun vöðva
  • Þrekstöðvar með áskorunar og leikjaívafi
  • Míní-handbolti, handboltaleikir á litlum mörkum, með mjúka bolta og varnarmmenn spila vörn án snertingar. Hér mun ég líka kynna til leiks annarskonar leiki þar sem ég nota t.d. stórbolta (120 sm í þvermál)
  • Styrkur og teygjur

Hér er allt í gangi, þrekstöðvar og tónlist

Svo er spilað með sérstaklega aðlöguðum reglum, og það er fjör 🙂 Lykilatriði er að leikurinn á að vera án snertingar.

Skráning fer fram í gegnum skráningarkerfi Fjölnis – XPS

https://xpsclubs.is/fjolnir/registration

Þarf “undrabarnið” að æfa upp fyrir sig? hluti 3. Að spila með eldri

Það getur verið góð hugmynd að barnið æfi og keppi upp fyrir sig, en þá ákvörðun tökum við auðvitað bara að vel athuguðu máli í skipulögðum íþróttum. Hvað er annars að hræðast? Ef við hugsum aðeins út í það, þá ættu þessar aðstæður að koma reglulega upp á skólalóðinni. Hvað er mikilvægt þá? Að vel sé tekið á móti þeim sem yngri eru og skipt í lið á sanngjarnan hátt (vonandi ekki kosið). Það er hætta á að ef þau sem eru eldri og þroskaðri fara fram með yfirgangi og tuddaskap þá komi þau yngri ekki aftur, – eins og þau hafa val um. Eru lögmálin á skólavellinum ólík skipulagða starfi íþróttafélaganna?

Í þessari grein ætla ég að reyna að varpa ljósi á sumar af þeim spurningum sem við ættum að spyrja okkur áður en við spilum börnum uppfyrir sinn aldur. Ef þú lesandi góður, ert ekki þegar búinn að lesa fyrri tvær greinar mínar í þessari seríu um vandann og þær lausnir sem gætu falist í því að breyta verkefninu þá hvet ég þig til að kíkja á þær líka.

Hér getið þið skráð ykkur fyrir skilaboðum um nýtt efni á þessari síðu

Við byrjuðum á að undirstrika það sem birtist okkur þegar við sjáum börn sem hafa miklu meiri getu en jafnaldrar og velta fyrir okkur hvað væri til ráða. Ef við setjum okkur í spor ungra leikmanna sem eru að spila upp fyrir sig þá hafa nokkrir hlutir breyst. Líkamlega er líklegt að viðkomandi hafi ekki lengur það augljósa forskot í t.d. hraða, hæð eða styrk sem var til staðar. Þetta á líka við um leikmanninn sem hefur afburða leikskilning, en þó á annan hátt. Að finna sig í þessari stöðu kallar á lausnaleit og aðlögun hjá leikmanninum því lausnirnar sem virkuðu á jafnaldrana verða ekki eins árangursríkar í nýju umhverfi.

Kröfurnar um að skynja aðstæðurnar og taka góðar ákvarðanir aukast því eftir því sem við færust nær meistaraflokki. Sömuleiðis hækkar ákefð og hraði eykst í spili sem styttir tíma til að athafna og ákveða sig. Sé stökkið upp um flokk mátulegt (getustig), þá felst í þessu mikil aðlögun að breyttu umhverfi. Það er viðbúið að það taki nokkurn tíma að aðlagast hraðara spili, meiri ákefð, bæði líkamlega og hugarfarslega, og iðkandinn þarf að vera undir þetta búinn. Félagslega er líka lykilatriði að vel sé tekið á móti þeim sem eru að spila upp fyrir sig því það er alveg viðbúið að þessu geti fylgt núningur ef ekki er vel að gætt.

Leikmenn sem sýna afburðagetu þurfa áskoranir við hæfi, um það verður ekki deilt. Að spila upp fyrir sig er viðfangsefni sem hefur fengið frekar litla athygli rannsakenda en þær sem birtar hafa verið eru sammála um megináherslurnar. Það ber að skoða langtímamarkmið og heildræn áhrif þess að spila með eldri. Í nýlegri erlendri rannsókn sem byggðist á viðtölum lögðu iðkendur mesta áherslu á að fá tækifæri til að taka framförum (áskorun) og viðurkenningu fyrir færni sína. Erfiðast fyrir þá var að aðlagast ákefðinni og að falla inn í hópinn félagslega. Í því samhengi spila þjálfararnir sjálfir og iðkendur lykilhlutverk í aðlögunarferlinu (Goldman et al, 2022).

Í öllu falli gildir að það beri að horfa á þau heildaráhrif sem það að spila upp fyrir sig kann að hafa á líkamlega, andlega og félagslega heilsu til lengri tíma. Það er algjör grundvallar útgangspunktur að ákvarðanir teknar í þjálfun barna séu með hag barnsins fyrir brjósti til framtíðar. Það getur nefnilega vel farið svo að þær forsendur gangi gegn markmiðum flokksins fyrir ofan að sigra næsta mót og hafa til þess alla bestu leikmennina tiltæka (skammtíma árangur). Enn fremur ættu langtímamarkmiðin að auðvelda okkur að til dæmis, hafna þeirri tillögu að spila meidd-/ur til að sækja Íslandsmeistaratitil yngri flokka það árið.

Langtímamarkmið ættu alltaf að trompa í ákvörðunartöku varðandi skipulag þjálfunar í starfi barna og unglinga. Photo by April Walker on Unsplash

Það eru nokkrar reglur úr þjálffræðinni sem við getum stuðst við. Fyrst nefni ég regluna um stigvaxandi þjálfun. Hún gerir ráð fyrir því að þjálfun dagsins í dag byggi á því sem gert var í gær. Rétt eins og við þurfum að byrja rólega í ræktinni þá þurfa unglingar á því að halda að það sé tekið tillit til álags vegna vaxtar og þroska. Því þarf að skoða heildarálagið og hverju það kemur til með að breyta að byrja að æfa og eða keppa með eldri aldursflokki að staðaldri. Oftast æfa eldri flokkar oftar og lengur við hærri ákefð en þau sem yngri eru sem eru þættir sem þarf að taka inn í myndina. Ágætt getur verið að reikna upp álagið með fjölda æfinga og mínútum til að fá yfirsýn því það er ótækt að bæta við heilu setti (öðrum flokki) af æfingum og keppni með eldri hópi á einni nóttu. Slíkt er t.d. hægt að gera með session RPE kvarðanum sem margfaldar mínútur á æfingu með upplifaðri ákefð (1-10). Það gefur auga leið að lengri æfing á hærri ákefð með eldri er að fara að skora umtalsvert hærra í líkamlegu álagi en æfing með jafnöldrum.

Þarna þarf að gæta að því að leyfa líkamanum og einstaklingnum að aðlagast auknu álagi með því að brjóta niður álagsaukninguna í stigvaxandi skref. Að lokum gæti niðurstaðan verið að fækka æfingum með eigin flokki til að geta tekið nokkrar með eldri. Í þessu má fara breytilegar og ólíkar leiðir. Það sem þarf að spá í hér er að þrepaskipta álagsaukningunni og muna að keppni fylgir jafnan mesta álagið (líkamlegt+andlegt). Þegar heildarmyndin er svo skoðuð myndi ég mæla með því að tryggja að það sé a.m.k. einn hvíldardagur frá æfingm og keppni í viku, og gæta þess að styrkþjálfun sé sinnt en ekki sleppt þegar æfingaálagið er mikið.

Hér koma auðvitað fljótt margir aðrir einstaklingsbundnir þættir inn í sem þarf að taka mið af. Er viðkomandi að ganga í gegnum mikinn vaxtarkipp einmitt á þessum mánuðum eða á það tímabil eftir að koma? Er viðkomandi vanur að æfa mikið eða tiltölulega nýbyrjuð/-aður. Er viðkomandi að æfa aðrar greinar á sama tíma og stendur til að gera það áfram? Hvað leyfa aðstæður og stuðningurinn að heiman (komast á æfingar og mót, og aukinn kostnaður)?

Þjálfun í grunninn snýst um að veita rétt áreiti á réttum tíma. Það mætti líka orða það þannig að við ættum aðeins að þjálfa/æfa eins lítið og við komumst upp með til að ná settum markmiðum (lágmarks skammtur). Því rétt eins og þegar læknirinn ávísar tveimur verkjatöflum á dag, þá myndum við ekki taka fjórar pillut til öryggis er það? Ég finn það á mínum hugsunarhætti að þessi nálgun snýr algjörlega niður þá hugsun að meira er betra og keppikeflið sé að safna klukkustundum í kroppinn.

Þetta tengist þeirri ætlan okkar að þjálfa upp íþróttafólk með langtímamarkmið í huga. Því tengt hafa nokkur módel verið sett fram með það að markmiði að varpa ljósi á þær forsendur sem ættu að ríkja á hverjum tíma. Þessi módel eru ekki óumdeild en geta gefið ágætis leiðbeiningar og stefnu byggða á almennum og þekktum staðreyndum í þjálfun. Tvö módel hafa verið einna fyrirferðamest í þessari umræðu undanfarna áratugi. Þar eru Þátttökuþróunarmódelið (Côté, 1999) og svo Módelið um þjálfun íþróttafólks til langs tíma (LTAD) (Balyi et al, 2004). Módelin sýna vel hvernig forsendur þjálfunar breytast eftir því sem einstaklingurinn þroskast og eru því gagnleg til að styðjast við og minna sig á vegferðina sem framundan er hjá ungu íþróttafólki.

Með hækkandi aldri og auknum þroska aukast kröfurnar og forsendur þjálfunar breytast. Við förum frá þátttökumiðaðri-þjálfun yfir í keppnis- og árangursmiðaða þjálfun fyrir þau sem stefna þangað. Við eigum mikið ógert í þróun þátttökumiðaðrar þjálfunar fyrir ungt fólk (16+ ára) og fullorðna þó svo það séu til vel heppnuð verkefni víða sem mætti hampa og læra af. Almennt ættu áherslur fjölbreytni að ríkja í þjálfun barna framan af til að viðhalda áhuga og stuðla að viðeigandi hreyfiþróun og styrk barnanna. Eftir því sem unglingsárin færast yfir víkja fjölbreytni-áherslur fyrir meiri sérhæfingu. Sérhæfing getur falist í ýmsum myndum en skýrustu merkin er aukið æfingaálag, árangursmiðaðar æfingar og aukin ákefð auk meiri áherslu á þátttöku í keppni og undirbúning. Aukin sérhæfing stuðlar að árangri í viðkomandi íþróttagrein og því sérlega freistandi að taka inn þessar áherslur í þjálfun. Fyrir meiri umfjöllun um þær get ég t.d. bent á grein sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum um snemmbæra sérhæfingu.

Eitt þeirra einkenna þjálfunar sem bera merki aukinnar sérhæfingar er þegar farið er að tímabilaskipta þjálfuninni á hverju ári í undirbúnings-, keppni- og hvíldartímabil. Slíkt er gert til að hámarka árangur og tryggja viðeigandi hvíld. Þessar áherslur ættu að koma inn með meiri þunga samhliða því að líkaminn vaxi og þroskist. Hugarfarslega fer frammistaða í keppni að skipta meira og meira máli og skipulag þjálfunarinnar tekur mið af því með álagsstýringu og hvíld fyrir og eftir keppni til að mynda. Dæmi um slíkt eru sérstakar taktískar æfingar og leikgreiningar á andstæðingi fyrir keppni. Þetta er ólíkt þjálfun yngstu flokkanna þar sem árangur í keppni er ekki aðalatriðið og því tekur skipulagið ekki sérstakt mið af því.

Þessi slóð er vandrötuð og í raun auðvelt að setja fram tillögur og vangaveltur hér því allt verður erfiðara og meiri vinna þegar við erum lent í aðstæðunum sjálf. Ég fann það til dæmis sjálfur að ég átti mjög erfitt með að gera upp á milli leikmanna sem voru þá um 11-12 ára hver fengi að spila með eldri. Mér er mjög annt um dýnamíkina í hópum hjá mér og því togaðist þetta alltaf á í mér út frá hvaða forsendum ég ætti að leyfa/biðja (stundum vantar) að spila upp fyrir í aldri. Það getur nefnilega verið spennandi fyrir áhugasama iðkendur því reglur leiksins breytast og áhöld (boltar, körfuhæð, harpix og mörk t.d.) eftir því sem þau fara í eldri flokk.

Leiðin sem ég fór að lokum oftar en ekki var sú að finna mót þar sem ég gat tekið heilt lið upp og spilað því saman. Þar með er ég ekki að segja að það sé eina leiðin, alls ekki. Það bara hentaði, – að mínu mati, þarna. Sérstaklega því mér hefur alltaf þótt erfitt að gera upp á milli leikmanna. Það komu líka upp tilvik þar sem stöku leikmanni var boðið að spila upp fyrir til að fylla upp í lið hjá eldri. Þar þarf að fara saman áhugi á þátttöku og að barnið sé tiltækt í það skiptið.

Að lokum er rétt að minna á mikilvægi samskipta og samráðs við barnið sjálft og ákvörðunarrétt þess. Það verður að gefa barninu raunverulegt val um það að spila upp fyrir sig eða ekki og svo að vera tilbúin að endurskoða þá ákvörðun áður en langt um líður því hlutirnir breytast svo hratt á uppvaxtarárunum.

Ég vona að það skiljist með þessum greinum mínum að þrátt fyrir að það sé ýmislegt vitað um þessi mál þá eru rosalega margir þættir sem þarf að taka tillit til í hverju tilviki fyrir sig. Þjálfarar taka ábyrgðina á þessu ferli sem er í senn krefjandi á svo marga vegu og um leið spennandi.

Hvernig við horfum á íþróttir og færni getur algjörlega breytt því hvert við teljum vandamálið vera, og enn fremur hver úrræðin geta verið. Útgangspunkturinn hér hafa verið hugmyndir hreyfivistkerfa. Meðal lykilhugmynda þar er hvernig hreyfinga okkar takmarkast af einstaklingnum, verkefninu og umhverfinu (Newell, 1986). Einstaklingurinn vex og þjálfast og geta barnanna/unglinganna breytist samhliða því. Með því að spila upp fyrir sig breytum við í raun umhverfinu (andstæðingunum) sem einstaklingurinn hreyfir sig innan með fyrrgreindum áskorunum. Það sem rætt var í hluta 2. í þessari seríu var hvernig við getum líka notað verkefnistakmarkanir (reglur og áhöld t.d.) til að hafa áhrif á þá áskorun sem barnið upplifir. Það eru aðgengilegustu takmarkanirnar sem við ættum að breyta hvað mest og oftast sem þjálfarar.

Ég ætla að lokum að fá að taka saman helstu punktana úr þessum þremur greinum.

  • Það er ekki víst að það þurfi að fara strax í að spila iðkendum upp fyrir sig til að veita áskorun við hæfi. Það eru ýmsar leiðir til að mæta ólíku getustigi. Hefur þú sem þjálfari hugsað hvað þú gætir gert með breytingum á verkefninu sem þú leggur fyrir?
  • Að breyta verkefnisþáttum þjálfunar (stærð vallar, áhalda, markmiðum og REGLUM leiks) getur verið lykill að því að jafna leikinn. Ekki festast í því að “drillan” geti bara verið á einn veg. Við sem þjálfarar getum gert tilraunir og það ættu leikmenn líka að gera.
  • Ef það á að spila barni upp fyrir sig skal gæta þess að það sé ríkur áhugi fyrir því hjá barninu, og skilningur og virðing í hópnum sem tekur við þeim einstaklingi. Nýtt umhverfi þar sem búið er að núlla út helstu styrkleika barnsins getur verið krefjandi (sem er markmiðið) og þarf af leiðandi lærdómsríkt og kallað á aðlögun og áframhaldandi þjálfun á færni.

Heimildir til stuðnings

Balyi , I. and Hamilton , A. (2004 ). Long-Term Athlete Development: Trainability in children and adolescents. Windows of opportunity. Optimal trainability , Victoria, BC : National Coaching Institute British Columbia & Advanced Training and Performance Ltd .

Bompa, T. O., & Buzzichelli, C. A. (2019). Periodization: Theory and Methodology of Training.

Côté, J. (1999). The Influence of the Family in the Development of Talent in Sport. The Sport Psychologist, 13(4), 395–417. https://doi.org/10.1123/tsp.13.4.395

Foster, C., Florhaug, J., Franklin, J., Gottschall, L., Hrovatin, L., Parker, S., Doleshal, P., & Dodge, C. (2001). A New Approach to Monitoring Exercise Training. Journal of Strength and Conditioning Research / National Strength & Conditioning Association, 15, 109–115. https://doi.org/10.1519/00124278-200102000-00019

Goldman, D. E., Turnnidge, J., Kelly, A. L., deVos, J., & Côté, J. (2022). Athlete perceptions of playing up in youth soccer. Journal of Applied Sport Psychology, 34(4), 862–885. https://doi.org/10.1080/10413200.2021.1875518

Kelly, A. L., Goldman, D. E., Côté, J., & Turnnidge, J. (2023). Playing-Up and Playing-Down: Conceptualising a ‘Flexible Chronological Approach.’ In Talent Identification and Development in Youth Soccer. Routledge.

Newell, K. M. (1986). Constraints on the development of coordination. In MG. Wade & HTA. Whiting (Eds.), Motor development in children: aspects of coordination and control (pp. 341-360). Martinus Nijhoff, Dordrecht.

Námskeiðið Handboltahreysti hefst brátt

Ég hef gengið með þessa hugmynd fulllengi og nú er kominn tími til að láta reyna á þetta 🙂

Í samstarfi við handboltadeild Fjölnis þá ætla ég að bjóða upp á námskeið sem byjar í lok þessa mánaðar og kallast Handboltahreysti. Þetta verkefni er að mestu að Skandinaískri fyrirmynd þar sem íþróttum og styrk er blandað saman fyrir fullorðið fólk á aldrinum 35-55 ára í leit að skemmtun og líkamlegum æfingum. Ég er í það minnsta spenntur að takast á við þetta hlakka til að mæta ykkur í Egilshöll kl. 21 að kvöldi sem er sérstaklega hugsað fyrir fólk eins og mig sem á ung börn.

Skráning er í gegnum vef Fjölnis og fjöldi iðkenda verður takmarkaður.

SKRÁNING HÉR

Ef einhverjar spurningar eru hafið þá endilega samband í gegnum síðuna mína á facebook

Við byrjum á fríum prufutíma fyrir mig að hitta ykkur að prófa og mig að máta nokkrar hugmyndir.

Skráning í frían prufutíma með því að gera “going” á facebook

Þarf undrabarnið að æfa upp fyrir sig? 2. hluti – Felst lausnin í takmörkunum?

Það sem hér verður lagt til kann að hljóma of einfalt til að geta talist til lausnar við þeim vanda sem ójöfn geta innan hóps getur reynst. Getur það verið að hluti lausnarinnar felist í því hvernig við sjáum vandann fyrir okkur og krefjist þess að við tökum upp nýtt sjónarhorn? Ég hef áður fjallað um hreyfivistkerfi og hvernig sú hugsun er ólík þeirri sem við höfum alist upp með og er allt í kringum okkur (t.d. hvað varðar tækniþjálfun). Aðferðin sem hér verður kynnt er kölluð takmarkana-stýrð nálgun (TSN) eða contraint led approach á ensku. Hún byggir á því að hreyfingar okkar og hegðun sé best útskýrð út frá sambandi einstaklingsins sjálfs við umhverfið, og þar á meðal við reglur leiksins og andstæðingana hverju sinni. Þetta er ólíkt þeirri hugsun að við vinnum aðeins eftir boðum frá heilanum eftir að upplýsingar hafi verið skynjaðar og skipun gefin.

Takmarkanir, samkvæmt Newell (1986), má skipa í þrjá flokka. Hreyfingar einstaklingsins sjálfs það er líkamlegum og hugarfarslegum þáttum, félagslegum þáttum sem eru í umhverfinu (áhugi og þekking t.d.) og aðstöðunni auk verkefnisins sjálfs (reglum og markmiðum leiks). Í þessum þáttum kjarnast starf þjálfarans því hann getur haft áhrif á alla þessa þætti þó með ólíkum aðferðum og á misjafnlega löngum tíma. Þrátt fyrir að umhverfið sé mikilvægt (efni í aðra grein) eru ástæður ójafnrar getu oft að finna í ólíkum einstaklings-takmörkunum (t.d. líkamshæð, leikskilningi, sprengikrafti og þoli) sem geta breyst hratt á unglingsárunum. Hér verður athyglinni þó beint að verkefnistakmörkunum (reglum og markmiðum leiks) þar sem við getum og ættum að vinna náið með á hverri æfingu.

Hvernig vinnum við með þessar takmarkanir og af hverju er það gagnlegt? Takmarkanir eru einskonar mörk sem móta þær hreyfingar (hreyfilausnir) sem birtast við hverjar aðstæður hverju sinni. Þannig getum við haft mikil áhrif snögglega á að sem fram fer inni á vellinum með því að breyta markmiðum leiks, reglunum, stærð vallarins eða boltans sem spilað er með. Í því felst bæði vinnan og galdurinn, – það er að hugsa um góða breytingu sem getur haft tilætluð áhrif. Ef við ætlum að taka á ójafnri getu í leik þá er viðmiðið oftast keppnisútgáfa þeirrar íþróttar sem við spilum. Það er þó ekkert sem segir að við þurfum alltaf að spila eftir þeim reglum á æfingum, þvert á móti. Við ættum að skora á iðkendur með því að sprengja af okkur takmarkanir sem gilda í keppni og prófa okkur áfram með aðrar sem reyna á aðlögunarhæfnina. Það er nefnilega ekki víst að það séu sömu einstaklingarnir sem skína undir öllum aðstæðum. Ímyndið ykkur bara ef það mætti bara skora með hægri fæti í fótbolta, – væri Messi jafn afgerandi? Hvernig leikmenn nutu góðs af því að setja inn 3ja stiga regluna í körfu? Hér þarf þjálfarinn að vera skapandi í hönnun takmarkana og greinandi á hreyfilausnirnar á sama tíma og þær eiga sér stað, óhrædd/-ur við að prófa sig áfram og breyta (alveg eins og iðkendurnir sjálfir).

Af hverju er þetta svona mikilvægt? Hugmyndir hreyfivistkerfa undirstrika hvernig við getum átt von á ólíkri útkomu í hvert skipti (Bernstein og frelsisgráðurnar t.d.) og gjarnan leitum við oft í svipaðar lausnir við svipaðar aðstæður. Til að stuðla að lausnaleit, sköpun og aðlögunarhæfni má leika sér með takmarkanirnar en gæta þess þó að hafa þær ekki of einangrandi. Þannig má hugsa þær sem girðingar sem við notumst við til að hafa áhrif á hreyfingarnar. Ef við pössum upp á að halda þeim hæfilega opnum þá skiljum við eftir rými fyrir einstaklinginn til að skapa og koma með eigin lausnir.

Gott dæmi til að hafa í huga eru reglubreytingar í kappleikjum sem hafa haft afgerandi áhrif á það hvernig leikurinn er spilaður. Fótboltinn er íhaldssamur varðandi reglubreytingar en leikurinn í dag er þó um margt ólíkur þeim sem var spilaður fyrir 10-15 árum. Þar gætum við talað um að þar hafi átt sér stað framþróun innan reglna (fyrir utan VAR og fimm skiptingar) leiksins með bættu þreki, greiningum og taktík þó svo reglurnar séu svo til óbreyttar. Þróunin á sér stað með tilraunum, sköpun og aðlögunarhæfni. Í handbolta hefur þessu verið öfugt farið að nokkru leiti. Þar hafa reglubreytingar undanfarin ár (fyrst hröð miðja, svo skipta markmanni og meiri refsingar fyrir hættuleg brot og höfuðhögg) sett nýjar takmarkanir en um leið opnað nýjar víddir sem þjálfarar og leikmenn hafa nýtt sér. Reglurnar hafa haft það að markmiði að auka hraða og vernda leikmenn hafa breytt spili leiksins, – og í heildina litið náð að þróa leikinn í rétta átt að mínu mati. Þróun leiksins á meistaraflokkstigi hefur svo áhrif á það hvernig leikmenn við viljum þróa í yngri flokkum og þjálfunaráherslur breytast.

Flestir þjálfarar þekkja vel áhrifin af því að setja “bannað að drippla” eða “einnar-snertingar” reglu. En höfum við gaumgæft áhrifin nógu vel? Hvaða lausnir birtast og hverjar hverfa? Takmarkana-stýrða nálgunin bendir okkur einmitt í að hugsa í þessa átt, – og prófa okkur áfram með takmarkanirnar og virkilega stúdera áhrifin. Því þó þetta séu aðeins “litlar” breytingar á verkefninu í heild fáum við fram allt annarsskonar leik, þar sem ákveðin hegðun styrkist (t.d. hreyfing án bolta) á meðan önnur gæti dottuð út, t.d. lengri hlaup án bolta. Hér gildir að litlar verkefnis-breytingar geta haft mikil áhrif (ólínulegt samhengi) á leikinn sem við sjáum inni á vellinum. Hvernig passa þessi áhrif við þau markmið sem við höfðum? Í þessu ljósi getum við séð og unnið með aðlögunarhæfni iðkenda sem einstaklinga og hluta af heild.

Leikir í litlum liðum (small sided games) er vel þekkt aðferð sem skilar mörgum jákvæðum þjálffræðilegum áherslum samtímis. Þar fær hver og einn einstaklingur mikið að gera og hlutverk iðkandans stækkar við það að vera í 3ja manna liði í stað 7 eða 11. Það eru til ótal útfærslur og ég er líka handviss um að þið þjálfarar hafið þegar prófað margar. Ákveðnar takmarkanir geta ýtt á nýjar skapandi hreyfilausnir á meðan “allt frjálst” formið gæti leitt til einsleitari lausna, rétt eins og áin sem rennur alltaf þangað sem mótstaðan er minnst. Þetta er kallað “constrain to afford” eða “takmarkað til að frelsa“. Trikkið að mínu mati hér felst í því að hætta að hugsa æfingarnar í “drillum” sem leikmennirnir þurfa að leysa með “réttum” hætti heldur sem verkefni þar sem margar ólíkar hreyfingar koma fram undir sífellt og hratt breytilegum aðstæðum. Það eru margar leiðir að því að leysa verkefnið, og hver og einn iðkandi þarf að finna sína leið, út frá eigin takmörkunum. Þjálfari sem hefur lagt inn vinnuna við að ákveða hvert markmiðið er með æfingunni horfir því meira á hreyfingarnar og lausnirnar (setur sig í spor) heldur en á skeiðklukkuna.

Að lokum get ég nefnt lítið dæmi af sjálfum mér um það hvernig verkur í skotöxl ungs handboltamanns getur algjörlega breytt því hvernig maður sér leikinn. Í einni svipan er möguleikinn (hreyfiboðið) að skjóta að utan ekki mögulegur vegna verks. Í staðinn opnast augun fyrir því spili sem er í boði og maður tekur jafnvel eftir samherjanum sem stendur og bíður við 6 metra línuna algjörlega frír til að fá boltann. Þegar þú telur þinn helsta séns vera að skjóta fyrir utan er alls óvíst að það sé búið að “samtengja” (attune) þá möguleika (hreyfiboð) sem felast í línusendingum eða hornaspili. Þegar opnað hefur verið á þessa skynjun þarf svo að leysa þann vanda að koma sjálfum boltanum á samherjann þar sem engar tvær stoðsendingar eru eins.

Ég skal viðurkenna að þessi nálgun hefur endurnært aðdáun mína á hreyfingum og því hvernig við leysum ólík verkefni á ólíkan hátt. Ég hefði gaman af því að heyra hvað þessar hugmyndir gera fyrir þig?

Næst tökum við fyrir ávinning og áskoranirnar við að láta “undrabarnið” spila upp fyrir sig.

heimildir til stuðnings

Button, C., Seifert, L., Chow, J. Y., Araujo, D., & Davids, K. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.

Clemente, F., & Sarmento, H. (2020). The effects of small-sided soccer games on technical actions and skills: A systematic review. Human Movement, 21(3), 100–119. https://doi.org/10.5114/hm.2020.9301

Þarf undrabarnið að æfa upp fyrir sig? 1. hluti – Hver er vandinn?

Ein af stóru áskorunum þjálfara yngri flokka er “undrabarnið” sem skorar að vild. Leikmaðurinn sem hleypur framhjá, stekkur yfir og tekur boltann auðveldlega af jafnöldrum sínum vekur augljóslega athygli. Margvíslegar áskoranir fylgja því að þjálfa börn í hópíþróttum og ójöfn geta getur verið mjög krefjandi. Getuskipting hóps er ein leið sem getur mætt einmitt þessari áskorun upp að vissu marki. Hún gerir okkur betur kleift að bjóða upp á verkefni við hæfi, – verkefni sem innihalda mátulega mikla áskorun fyrir barnið svo það viðhaldi áhuga. Þetta er þó ekki algild lausn því í hverjum hópi þarf líka að taka tillit til huglægra og félagslegra þátta, en ekki aðeins líkamlegrar getu á þessu skeiði. Þetta gæti reynst erfitt því við eigum það til að dást og lofa svona yfirburði, jafnvel þó það sé óhjálplegt. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að börnum þar sem helsta forsenda þátttöku ætti að vera leikgleðin.

Þjálfarar lenda reglulega í því að vinna með leikmenn sem skara fram úr í hóp,- svo mjög að leikmönnunum finnst áskorunin sem samherjarnir bjóða upp á á æfingum ekki næg og leiðist. Ástæðurnar fyrir yfirburðunum geta verið margvíslegar á borð við fámenna æfingahópa, afburða leikskilning einstaklingsins, nú eða það að viðkomandi er líkamlega bráðþroska og hefur tekið út vöðvastyrk og hæð á undan jafnöldrum sínum. Í keppni jafnaldra getur verið erfitt að eiga við þessar aðstæður enda hafa andstæðingarnir ekki roð í að stöðva þær hreyfingar og þann kraft sem viðkomandi hefur yfir að búa. Hér getur hæglega munað nokkrum árum í líffræðilegum þroska (þó lífaldur sé sá sami) á þeim sem eru sein til og hinum sem þroskast hratt. Í flokkum hópíþrótta er innbyrðis aldursmunur oft 12-24 mánuðir, og það getur því munað um hvern mánuð. Þess má geta að samkvæmt vaxtarkúrfu íslenskra barna getur getur munurinn verið hátt í 37 kg og 29 sm milli 12 ára stúlkna sem eru í efstu 2% og neðstu 2% í hæðar og þyngdarkúrfunni.

Í boltaleikjum getur þetta forskot t.d. birst í óverjandi þrumuskotum (hlutfallslega lítill bolti), óstöðvandi einleik (erfitt að komast að boltanum vegna styrks og hraða) og ókleifri vörn (af líkamlegum burðum). Mikið ójafnvægi í getu vegur að einni helstu forsendum leiks, það er óvissunni um útkomuna. Án hennar hafa fá áhuga á að taka þátt. Þessar aðstæður geta sprottið tiltölulega hratt upp þroska barna og varað allt fram yfir unglingsár. Þetta líkamlega forskot er þó aðeins tímabundið en hefur mjög afgerandi áhrif á það hvernig leikurinn er spilaður. Það er stundum sagt um þessa leikmenn sem hafa þetta forskot að þeir séu “ekki að læra leikinn” því hvernig þeir spila byggir aðeins á þessu tímabundna forskoti sem þeir hafa. Hvað er til ráða? Hvernig er hægt að færa leikinn aftur til jafnvægis á æfingum og í keppni?

Sjálfur hef ég lent í þessum áskorunum sem þjálfari. Í baksýnisspeglinum verður það enn augljósara hvernig þetta forskot leikmanna kom og fór oft jafn hratt, en á þeim tíma var ég óviss um hvernig málin myndu þróast til fullorðinsára. Meðal aðferða sem ég beitti þá var að gefa þessum einstaklingum áskoranir, oftast sem þeir aðeins þeir vissu af. Það er ein þeirra leiða sem hægt er að beita og byggir notkun takmarkana (e. constraints) í formi reglubreytinga þó þeim sé bara beint að einum leikmanni. Það sem ég áttaði mig ekki á þá var hvernig ég gæti breytt reglum leiksins fyrir alla leikmenn til að jafna leikinn, – enda er það erfiðara. Komum aftur að því síðar.

Ef við eigum að greina vandann þykir mér gagnlegt að hafa taka upp hreyfivistkerfislega nálgun (ecological dynamics). Í stað þess að þjálfarinn hugsi að sá árangursríki en einsleiti leikstíll sem viðkomandi gæti hafa tileinkað sér sé “það eina sem hún kann” af því það “virkar alltaf” getur verið gott að taka upp sýn leikmannanna sjálfra á verkefnin. Byrjum á að hugsa okkur að allar þær hreyfingar sem við sjáum á vellinum séu afleiðingar flókins samspils fjölbreyttra þátta þar sem saman koma umhverfisþættir (við þjálfararnir, veðrátta, aðstaða og aðrir ytri þættir), einstaklingurinn (líkamlega bráðþroska og hugarfarslega) og verkefnið (reglur leiksins). Aðlögunarhæfni að ólíkum og breytilegum aðstæðum eru lykillinnn að árangri íþróttafólks og liða.

Það er því ekki nóg með að hver leikmaður glími við að samhæfa ólíka líkamshluta (sem líka eru að vaxa og þroskast) til að mæta breytilegum áskorunum leiksins heldur eru saman komnir margir ólíkir leikmenn á sama tíma í sama tilgangi. Hér er ég að beina athyglinni að skynjum okkar á umhverfinu út frá okkar eiginleikum hefur afgerandi áhrif á það hvernig við hreyfum okkur og hvaða leiðir við förum að þeim hreyfingum. Svona rétt eins og við skynjum ólíka möguleika til ferðalaga keyrandi um á stórum kraftmiklum bíl sem kemst allt nema í lítil stæði samanborið við litinn lipran og sparneytinn bíl. Það er margt inni á vellinum sjálfum sem getur gert það að verkum að “rétta” tæknin sem var drilluð í hörgul fyrir mót komist ekki að í óreiðu leiksins. Það kann einfaldlega að virðast sem svo að það sé bara aldrei rétti tíminn fyrir þessa hreyfingu. Eða var hún kannski aldrei nógu leiklík? Til að auka enn á flækjuna er þessi skynjun stöðugum breytingum háð því eitthvað sem var “ekki hægt” um veturinn er nú allt í einu orðið mögulegt um sumar, þökk sé hröðum vexti og þroska.

Þegar við setjum okkur í spor barnsins (t.d. 25 sm hærri en jafnaldrar), sjáum fyrir okkur hreyfingar þess og skynjun má ímynda sér hvernig ákveðin hreyfiboð (e. affordances) verða augljósari og auðveldari í framkvæmd en aðrar. Hæðarmunurinn (eða annað forskot) mun kalla á ákveðna hegðun bæði frá barninu og samherjum þess, og sömuleiðis móta leik andstæðingsins. Reglur leiksins sjá svo um að verðlauna árangursríkar tilraunir (skot, mörk, varnir) og styrkja viðkomandi hegðun. Þannig fáum við upp afar krefjandi aðstæður fyrir þjálfara. Á þjálfarinn að stöðva sigurgönguna og af hverju?

Hvaða leiðir eru færar í þessari stöðu? Ég ætla að byrja að velta því upp í hluta 2.

heimildir til stuðnings

Button, C. (2021). Dynamics of skill acquisition: An ecological dynamics approach (Second edition). Human Kinetics, Inc.

Dagbjartsson, A., Þórsson, A.V., Pálsson G.I., Arnórsson V.H. (2000). Height and weight of Icelandic children 6-20 years of age. Læknablaðið; 86: 509-14

Rudd, J., Renshaw, I., Savelsbergh, G. J. P., Chow, J. Y., Roberts, W., Newcombe, D., & Davids, K. (Eds.). (2021). Nonlinear pedagogy and the athletic skills model: The importance of play in supporting physical literacy. Routledge.

Um áhrif 2ja mínútna brottvísana á markaskor í Olísdeildinni

Núna í mars fór fram ráðstefna á netinu þar sem ég ásamt samstarfsmönnum og leiðbeinanda í doktorsnáminu mínu birtum útdrátt að rannsókn sem við gerðum nýlega. Viðfangsefnið var að skoða áhrif 2ja mínútna brottvísana á markaskor, fyrir og á meðan á 2ja mínútna brottvísun stendur (bæði karla og kvenna). Gögnin eru frá HBStatz og ná yfir síðustu fimm tímabilum í Olísdeildum karla og kvenna. Hér má sjá tiltölulega stutta kynningu sem ég tók upp fyrir ráðstefnuna. https://journal.aesasport.com/index.php/AESA-Conf/article/view/474

Hér er sjálfur útdrátturinn til að skoða á pdf formi.

Allar athugasemdir og pælingar um framtíðarviðfangsefni eru vel þegnar.

með kærum þökkum til meðhöfunda

Fleiri fríköst = betri vörn?

Í útdrætti sem var kynntur á ráðstefnu á netinu nýlega reyndi ég ásamt kollegum mínum að varpa ljósi á áhrif þess að vörnin nái fríköstum og hvort hún fengi þá færri mörk á sig fyrir vikið? Hér má nálgast kynninguna og útdráttinn sjálfan á netinu: https://www.aesasport.com/conference/2024/481/index.html.

Þessi útdráttur gefur innsýn í þá þætti sem við höfum verið að horfa til og er einmitt á því stigi að við tökum vel í athugasemdir og ábendingar. Ferlið sem tekur við er svo að vinna meira og betur úr þessari hugmynd og fleirum og birta að lokum grein um rannsóknina sem hefur þá fengið tíma til að vaxa og verða betri.

Vona að þetta veki áhuga hjá ykkur og hlakka til að heyra frá ykkur,

með handboltakveðju,

Skotklukka til æfinga í handbolta?

Þó nokkur ár eru síðan hugmyndir um skotklukku í handbolta komu fram. Þær hafa oftast verið innblásnar af þeirri sem notuð er í körfubolta. Hér sting ég upp á að við horfum til annarrar íþróttar. Hraðskák gæti verið áhugavert æfingaform, en ég sé það þó ekki fyrir mér til keppni umfram þann handboltaleik sem við höfum í dag. Tillagan er samt spennandi að mínu mati vegna þess hve hratt handbolti er að þróast. Ég tel að hér við höfum mjög hraðan leik með áhugaverðum takmörkunum (reglum). Sjálfur er ég ekki í aðstöðu til að keyra þennan leik með reglulegum hætti með liði sem stendur og því væri fróðlegt ef eitthvert ykkar gerir það. Ennfremur væri gaman að heyra ef eitthvert ykkar hefur verið að prófa sig áfram með þetta form eða sambærilegt?

Leikmenn sem spila leikinn í dag þurfa að taka margar taktískar ákvarðanir og það hratt. Sumar eru fyrirfram ákveðnar og aðrar eru ákveðnar af leikmönnum sjálfum í hita leiksins. Þessi leikur gæti verið einn þáttur í æfingaundirbúningi fyrir þær áskoranir í keppni. Ef við snúum aðeins upp á reglur leiksins má draga sérstaklega fram taktískar ákvarðanir leikmanna, og jafnvel þó þær séu gerðar undir öðrum reglum (takmörkunum) en í opinberu útgáfu leiksins, þá má sannarlega læra af, enda reyna þær á.

Tillagan er í sjálfu sér einföld, og hún hefur verið prófuð áður í öðru formi, svo mikið veit ég. Ég set þetta þó fram hér af forvitni og áhuga.

Skotklukkubolti (útg.1)

Um leikinn gilda hefðbundnar handboltareglur nema

  1. Spil:
    o Heildarsóknartími er takmarkaður við ákveðinn sóknartíma á lið. Ég get séð fyrir mér leiki allt frá 3 mínútum á lið og upp í 15 geta gengið vel. Að sjálfsögðu ákveðið eftir markmiðum af þjálfarans.
    o Hraðskák-klukka er staðsett á dómaraborðinu við miðvallarlínuna
    o Þegar sókn er lokið má leikmaður frá liðinu sem var ljúka við sókn (hvernig sem fór) ýta á takkann og setja sóknartíma andstæðingsins af stað (líkist skiptingum við markmann). Liðið sem var í vörn, og vinnur boltann má líka setja sinn tíma af stað (mikilvægt til að mega skora). Þetta gæti komið til þegar boltinn vinnst og ætlunin er að sækja hratt.
  2. Stigagjöf:
    o Það er aðeins leyfilegt að skora þegar sóknartími viðkomandi liðs er í gangi
    o Mikilvæg athugasemd: Sóknartíminn verður að vera virkur fyrir sóknarliðið til að geta skorað mörk. Þetta á einnig við í skyndisóknum og köstum yfir völlinn í tómt mark. Því mega leikmenn liðsins sem snögglega vann boltann líka setja sinn sóknartíma af stað um leið því andstæðingarnir hafa ekki mikinn hvata til þess fyrr en þeir eru nær því að vera komnir í vörn. (Þetta kemur mögulega í veg fyrir allra hröðustu hraðaupphlaupin til að byrja með, á meðan samherjarnir eru að kveikja á því að þurfa að setja sóknartímann af stað). Þá koma ekki mörg mörk yfir í tómt mark heldur á meðan þetta er reglan. Hér þarf samskipti og taktík til að samræma liðið og stytta viðbraðgstímann til að setja sóknartíma mótherjanna af stað.
  3. Sérreglur:
    o Ef leikmaður er sendur út af vegna brots sem venjulega samsvarar 2 mínútna situr leikmaðurinn í 1 mínútu af sóknartíma liðs síns (þar sem ekki er um venjulega leikklukku að ræða)
    o Liðið sem lýkur sóknartíma sínum á undan er fast í vörn og andstæðingarnir geta sótt ítrekað á mótherja sína þar til sóknartími þeirra rennur út. Í hvert skipti sem boltinn tapast eða mark er skorað undir þeim kringumstæðum (eitt lið á sóknartíma) þá er byrjað aftur frá eigin marki.
    o Réttast er að skipta leik upp í tvo leikhluta og víxla varllarhelmingum til að báðir vængir liðs þurfi að spila nær skotklukkunni.
  4. Lok leiks:
    o Það lið sem hefur skorað fleiri stig þegar sóknartími beggja liða er búinn sigrar
    o Ef annað liðið hefur klárað sóknartímann sinn og er undir í stigaskori þá er leik lokið.
    o Ef jafnt er þegar sóknartími beggja liða er búinn, þá er framlengt með silfurmarki. Liðið sem skoraði síðast með tíma af skotklukkunni byrjar í vörn. Það lið sem skorar fyrr án þess að andstæðingurinn nái að svara með marki sigrar.
Hér er tillaga að leiks sem gæti virkað sem áhugavert æfingaform sem reynir á taktíska hugsun í hröðum handboltaleik.
Þessi skreytingarmynd er að sjálfsögðu í boði gervigreindar, nánar tiltekið MS Image Creator.

Ég sé fyrir mér krefjandi ákvarðanir fyrir leikmenn, eins og hversu hratt skal byggja upp sóknina til að ná góðu færi? Hvenær ferðu í mjög stuttar sóknir til að spara tíma? Þú ert undir eða yfir, – hvernig ferðu með sóknartímann þinn? Tímaáherslan ætti einnig að hafa hvetjandi áhrif á vörnina að ná fram löglegum stöðvunum til að klípa tíma af sókninni. Þá ætti að haldast spennan nokkuð lengi í leiknum þar sem það er möguleiki fyrir liðið sem er undir að ná mótherjunum að stigum svo framarlega sem það er sóknartími eftir, og þá jafnvel að fara í margar sóknir í röð og skora mörg mörk ef sóknartími mótherjanna er búinn.

Tempóið ætti að geta verið nokkuð hátt í gegnum leikinn og varnarákefð er verðlaunuð með töpðum sóknartíma. Þannig er óvíst að það komi til þess að þurfa að dæma leiktöf við þessar aðstæður. Það getur verið smá óvissa hvernig það leysist að láta liðin setja af stað sóknartíma andstæðingsins, nú eða setja hann af stað fyrir sitt liði til að opna á möguleikann á að skora. Ég hef þó trú á að það leysist að einhverju leiti af sjálfu sér þegar liðin hafa spilað leikinn nokkrum sinnum og fundið að það getur verið dýrt gefa sóknarliðinu tíma til að koma sér upp völlinn án þess að pressa það og setja sóknartímann þeirra af stað. Ég er líka viss um að einhverjir leikmenn sjá glufur í þessum leik til að nýta sér sem ég hef ekki séð fyrir og það er þá undir þjálfaranum komið að meta hvort það þurfi að setja reglu um þá hegðun.

Að lokum sé ég þennan leik fyrir mér bæði sem uppbrot og ögrun við meistaraflokksleikmenn á hentugum tíma á undirbúnings eða keppnistímabilinu, og ekki síður fyrir elstu yngri flokkana sem taktísk æfing sem hægt er að ræða um. Það ætti hið minnsta að vera nóg at í þessum leik.

Hlakka til að heyra frá ykkur sem ætlið að prófa.

ps. hér er leiklýsingin á pdf formi:

PhD verkefni: Tölfræði deildarmeistara í Olísdeild karla samanborið við önnur lið

Þetta er kynning mín á ráðstefnugrein frá því í fyrra sem tengist doktorsverkefninu mínu um frammistöðugreiningar í handbolta. Hún fjallar um tölfræði Vals sem sigurvegara í deildakeppni karla í tvö ár í röð samanborið við andstæðinga sína. Nokkrir áhugaverðir punktar þarna að mínu mati.

Stórboltafjörið rúllaði vel í haust

Það er mjög skemmtilegt að vinna með þessa stóru OMNIKIN bolta, og frábært að fá til þess tækifæri í #BeActive vikunni fyrr í haust. Boltarnir eru 120 sm í þvermál og passa því ekki í gegnum venjulegar dyragættir en eru á sama tíma mjög léttir sem gefur þeim mjög áhugaverða eiginleika.

Það er í raun aðeins ímyndunaraflið sem takmarkar hvernig unnið er með boltann og það er hluti spennunni í vinnu með boltann. Það að prófa eitthvað nýtt og sjá ólíka hópa takast á við þessa áskorun.

Stórboltaleikur á Laugum

Það er hægt að leika sér með boltann á fjölbreyttan hátt með ýmis markmið að leiðarljósi eins og í kennslu eða fyrir hópefli. Í haust vann ég með tíma sem höfðu það að markmiði að kynna nýjan leik sem kallast Kin-ball, og við gætum bara þýtt og kallað stórbolta. Reglur leiksins voru kynntar og æfðar og leikurinn að lokum spilaður í bland við hópeflisleiki eftir því sem tími vannst til.

Skipulag tímanna tekur helst mið af aðstöðunni og fjölda þátttakenda. Það má með góðu móti vinna með allt frá 12 manns og upp í rúmlega 40 manns í sama tímanum þar sem þrjú lið spila inná í einu. Til að spila KIN-ball leikinn þarf að tileinka sér nokkrar nýjar reglur sem hægt er að gera í vinnu með blöðrur í smærri hópum svo dæmi sé tekið. Það var afar áhugavert að fá að leika með stórboltann með hópum unglinga í eldri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla. Leikurinn er þess eðlis að hann krefst samtals og samvinnu. Þátttakendur geta öll lagt sitt af mörkum og því skapast góður grunnur til að vinna með í kennslu og hópefli fyrir mjög breiðan aldur eða allt frá um 8 ára og upp úr.